Farfuglaheimilið á Vesturgötu hlaut á dögunum viðurkenningu alþjóðasamtaka Farfuglaheimila fyrir að hafa verið valið besta Farfuglaheimilið í heimi árið 2015.

Farfuglaheimilið Loft lenti í fjórða sæti og Farfuglaheimilið á Berunesi í því fimmta. Alls eru níu íslensk farfuglaheimili á þessum lista yfir 50 heimili um allan heim.

Það eru gestir farfuglheimilisins sem bókuðu þjónustu sína gegnum bókunarvél samtakanna sem standa fyrir valinu. Alls eru um 2500 Farfuglaheimili um allan heim bókanleg á bókunarvélinni og því er hér um einstakan árangur að ræða.
Á síðasta ári hlaut Farfuglaheimilið Loft einnig viðurkenninguna sem besta Farfuglaheimilið í heimi og þá var Farfuglaheimilið á Vesturgötu í öðru sæti.
"Við erum ákaflega stolt og ánægð að fá þessi verðlaun", segir Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Farfugla en hann tók við verðlaununum fyrir hönd Farfugla á fundi framkvæmdastjóra Farfuglaheimila í Vín í Austurríki. "Viðurkenningin hefur mikla þýðingu fyrir okkur og er jafnframt hvatning til að halda áfram á sömu braut. Við erum með starfsfólk sem leggur mikinn metnað í að veita gestum bestu mögulegu þjónustu og eru verðlaun staðfesting á því að við erum að standa okkur vel .“
