Stefnur og gildi Farfugla

Farfuglar eru félagasamtök sem hafa það að markmiði að styðja við sjálfbæra og ábyrga ferðamennsku og menningarlega fjölbreytni.

 

Hlutverk Farfugla

Styðja við sjálfbæra og ábyrga ferðamennsku og menningarlega fjölbreytni. 

 

 

Gildi Farfugla 


Virðing

Við berum virðingu og umhyggju fyrir samstarfsfólki okkar, gestum og umhverfi. Við virðum ólíkar skoðanir og sjónarmið og gerum okkur far um að skilja fólk frá öðrum menningarheimum. Við ávinnum okkur traust með góðri framkomu, bæði við gesti og samfélagið sem viðstörfum í. Við fögnum fjölbreytileika og nýtum styrkleikana sem felast í ólíkum uppruna og menningu. Við leyfum hæfileikum hvers og eins að njóta sín. 

 

Víðsýni

Við erum víðsýn, sýnum frumkvæði og erum reiðubúin að tileinka okkur nýjungar sem gera starf okkar árangursríkara. Við erum tilbúin að fara nýjar leiðir við að leysa verkefni og vinna saman til hagsbóta fyrir gesti okkar. Við miðlum reynslu okkar til Farfugla um heim allan og styðjum þannig við ábyrga ferðamennsku og alþjóðlegt samstarf. 

 

Gestrisni

Við tökum vel á móti gestum og þeim sem við eigum samskipti við. Við leggjum okkur fram um að miðla réttum upplýsingum, leiðréttum mistök hratt og vel og lærum af þeim. Við leggjum okkur fram um að uppfylla kröfur sem gerðar eru til okkar í starfi. Við tileinkum okkur sjálfbæran og ábyrgan rekstur. Við erum skapandi og leitum leiða til að hámarka jákvæð áhrif af starfseminni.

Samgöngustefna

Hlutverk Farfugla er að styðja við sjálfbæra og ábyrga ferðamennsku. Til að ná því markmiði er sífellt leitað nýrra leiða til að styrkja ábyrgan lífsstíl, gildismat og viðhorf þegar kemur að verndun náttúrunnar. Þær leiðir sem snúa að starfsfólki eru teknar saman í þessari Samgöngustefnu sem styður um leið vel við Sjálfbærnistefnu Farfugla.

 

Markmið

 Farfuglar vilja beita sér fyrir minni mengun, heilbrigðari lífsstíl sem og öruggara og líflegra umhverfi.

 

 • Minni mengun. Með því að draga úr mengun vegna samgangna vilja Farfuglar stuðla að betra umhverfi. Þar er horft til mengunar eins og losunar gróðurhúsalofttegunda, svifryks, sóts og hljóðmengunar sem allt hefur neikvæð áhrif á náttúruna og heilsu fólks.
 • Heilbrigður lífsstíll. Heilsufarslegur ávinningur af því að ganga eða hjóla reglulega til og frá vinnu er óumdeildur. Með því að bæta aðstæður fyrir þá sem vilja komast til og frá vinnustaðnum með öðrum hætti en á einkabílnum er stuðlað að jafnræði við val á ferðamáta og breyttum ferðavenjum starfsfólks sem hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðaan.
 • Öruggt og líflegt umhverfi. Með því að draga úr bílaumferð og með fjölgun þeirra sem koma gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum minnkar þörfin fyrir bílastæði og götur. Það hefur einnig í för með sér að fleiri verða á ferli. Færri bílar og fleiri á ferli eykur öryggi. Þannig stuðla Farfuglar að öruggara og líflegra umhverfi.

 

Farfuglar bjóða starfsfólki sínu upp á eftirfarandi leiðir:

 • Samgöngusamningur milli Farfugla og fastráðins starfsfólks.
 • Sveigjanlegur vinnutími og góð vinnuaðstaða.
 • Aðgangur að vistvænum starfsmannabíl og starfsmannahjólum á vinnutíma.
 • Góð starfsmannaaðstaða fyrir þá sem stunda hreyfingu.
 • Hvatning og fræðsla tengdar vistvænum samgöngum.
 • Afslættir og tilboð á þjónustu, aðstöðu og búnaði.
 • Aðgerðir sem minnka kolefnisspor vegna ferða starfsfólks.

 

Samgöngustefnan er í samræmi við stefnuskjal Farfugla frá því í apríl 2016 sem skilgreinir meginstefnu, hlutverk, framtíðarsýn og gildi samtakanna. Samgöngustefnan skal kynnt starfsfólki Farfugla og vera aðgengileg á innra neti samtakanna. Í tenglum við samgöngustefnuna hefur verið unnin aðgerðaáætlun þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgð, framgang og eftirfylgni. Samgöngustefnan skal endurskoðuð annað hvert ár og tekur endurskoðun meðal annars mið af könnun á árangri áætlunarinnar. Breytingar á henni skulu samþykktar í stjórn Farfugla ses og kynntar starfsfólki.

 

Samþykkt í stjórn Farfugla ses 20. september 2016.

Aðgerðabundin jafnréttisáætlun

Farfuglar leggja metnað sinn í að vera fyrirmyndarfyrirtæki og vinna því markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan samtakanna eins og kveðið er á um í 18. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

 

Við gætum jafnréttis milli starfsmanna með því að hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi:

 • Að jafna laun karla og kvenna.
 • Að jafna hlutfall kynja innan einstakra starfsstöðva, hópa og deilda.
 • Að gera starfsfólki kleift að samræma sem best starfskröfur og fjölskylduábyrgð.
 • Að tryggja jafnan hlut kynja í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum.
 • Að tekið sé mið af jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun og ákvarðanatöku.
 • Að efla jafnréttisvitund starfsmanna.
 • Að líða hvorki ofbeldi né áreiti á vinnustað; hvort sem um ræðir andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi eða áreiti.
 • Að gera það hluta af mati stjórnanda að mæla og meta árangur í jafnréttismálum.

 

Stefnumið:

 • Við greiðum jöfn laun og veitum sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Við vinnum skipulega og markvisst að úttektum á launum og kjörum og bætum sífellt vinnulag okkar við launasetningu til að útrýma kynbundnum launamun í fyrirtækinu.
 • Við virðum fólk óháð kyni, kynhneigð eða kynvitund. Við ætlum að stuðla að því að kynjahlutföll verði jafnari innan hinna ýmsu starfshópa fyrirtækisins og leitum margvíslegra leiða til að ná auknum árangri á þessu sviði.
 • Sveigjanleikinn er mikill hjá Farfuglum. Við reynum að samræma starfskröfur og fjölskylduábyrgð eins og kostur er. Slíkur sveigjanleiki byggist á nánu samstarfi og trúnaði milli yfirmanns og undirmanns.
 • Farfuglar leggja áherslu á að umburðarlyndi, virðing og náungakærleikur einkenni öll samskipti. Hjá Farfuglum er ekki liðið að starfsmenn sæti einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi. Klám og klámvæðing er ekki liðin á vinnustaðnum. Vinnustaðurinn skal stuðla að öryggi og vellíðan. Farfuglar tryggja að þjónusta og aðstaða sé ekki notuð til mansals og/eða þrælkunarvinnu eða kynferðislegrar misnotkunar.
 • Þær aðgerðir sem gerðar hafa verið til að stuðla að jafnrétti kynjanna skulu kynntar á vinnustaðnum.
 • Jafnréttisnefnd skal skipuð til 2ja ára. Nefndin skal funda a.m.k. mánaðarlega frá september til maí ár hvert. Aðgerðaáætlun jafnréttismála er í sífelldri þróun eins og önnur stefnumótun. Árangursmat skal unnið annað hvert ár með launaúttekt, vinnustaðagreiningu og öðrum mælingum sem tilgreindar eru í aðgerðaráætluninni. Jafnréttisnefnd ásamt mannauðsstjóra tekur saman kyngreindar upplýsingar árlega út frá þessari áætlun.

 

Jafnréttisáætlunin er í samræmi við stefnuskjal Farfugla frá því í apríl 2016 sem skilgreinir meginstefnu, hlutverk, framtíðarsýn og gildi samtakanna. Jafnréttisáætlunin skal kynnt starfs-fólki Farfugla og vera aðgengileg á innra neti samtakanna. Í tenglum við jafnréttisáætlunina hefur verið unnin aðgerðaáætlun þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgð, framgang og eftirfylgni. Jafnréttisáætlunin skal endurskoðuð annað hvert ár og tekur endurskoðun meðal annars mið af könnun á árangri áætlunarinnar. Breytingar á henni skulu samþykktar í stjórn Farfugla ses og kynntar starfsfólki.

 

Samþykkt í stjórn Farfugla ses 25. október 2016.

Mannauðsstefna

Sérstaða og samkeppnisstyrkur Farfugla byggir á vitund og ástríðu starfsfólks sem hefur gildin: víðsýni, virðing og gestrisni að leiðarljósi.

 

Ráðningar og starfslok

Farfuglar leggja áherslu á að ráða til starfa hæft og traust fólk sem eflir heildina. Við val á starfsfólki er metin menntun, fagþekking, reynsla, persónuleiki, áhugasvið og hæfni til mannlegra samskipta. Við sækjumst eftir starfsfólki með sterkt vinnusiðferði og hefur áhuga á að tileinka sér hugmyndafræði Farfugla og vaxa í starfi.

Farfuglar leggja metnað í að taka vel á móti nýju starfsfólki og fá allir nýliðafræðslu um starfsemi Farfugla, hlutverk þeirra og markmið, ásamt þeim stefnum sem Farfuglar hafa sett.

Farfuglar eru þakklátir fyrir það starfsfólk sem gengur til liðs við samtökin og leitast við að halda góðu sambandi við þá sem hætta störfum. Við kveðjum starfsfólk með virktum og þökkum samstarfið.

 

Samskipti og upplýsingamiðlun

Farfuglar vilja að starfsfólk geti talað af stolti um vinnuveitanda sinn og séu öflugir talsmenn samtakanna út á við. Gildin: víðsýni, virðing, og gestrisni eru leiðarljós í öllum samskiptum þar sem samkennd og tillitssemi eru sýnileg. Boðleiðir skulu vera skýrar og hvatt er til opinna og uppbyggjandi skoðanaskipta um það sem má betur fara á vinnustaðnum og til að ná sameiginlega betri árangri.

Starfsánægja, góður starfsandi og vellíðan starfsfólks er ávalt í forgangi. Umboð til athafna er víðtækt og starfsmenn vinna sameiginlega að umbótum. Jákvætt viðmót í samskiptum við samstarfsfólk og gesti er lykillinn að starfsánægju og virkni í starfi.

 

Starfsþróun, þjálfun og fræðsla

Farfuglar telja að þjálfun og starfsþróun séu sameiginleg verkefni starfsfólks og stjórnenda til þess að ná framúrskarandi árangri. Við teljum áríðandi að starfsfólk taki ábyrgð á eigin frammistöðu og því að viðhalda þekkingu sinni með því að leita sjálft ýmissa upplýsinga vegna starfs síns. Því er mikilvægt að starfsfólk hafi möguleika á því að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að fá tækifæri til að eflast og þroskast í starfi. Með virkri endurgjöf telja Farfuglar að starfsfólk auki færni sína og þekkingu.

Starfsfólki, starfsnemum, sjálfboðaliðum og öðrum sem að samtökunum koma er boðið upp á fjölbreytta þjálfun og fræðslu sem hluta af fræðsluáætlun.

Lögð er áhersla á að auka menningarlæsi stjórnenda og starfsfólks með samfélags- og mannréttindafræðslu. Hvatt er til íslenskunáms.

 

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð

Farfuglar sýna ábyrgð í verki og standa við skuldbindingar sínar um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni í rekstri samkvæmt útgefinni stefnu og skýrum og mælanlegum markmiðum. Við rekstur eigin heimila er unnið samkvæmt umhverfisstjórnunarkerfi sem er undirstaða gæða- og umhverfisvottana. Farfuglar höfða því til starfsfólks sem samsamar sig gildum og hugmyndafræði Farfugla og er tilbúið að taka virkan þátt.

Við teljum það hluta af samfélagsábyrgð samtakanna að bjóða ungu fólki aðstöðu og tækifæri til að þjálfa styrkleika sína og koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Farfuglar fagna fjölbreytileika þar sem hann styrkir nútímasamfélag. Farfuglar gera samgöngusamninga við starfsfólk sitt.

 

Alþjóðasamstarf og nýsköpun

Farfuglar vilja skapa hvetjandi starfsumhverfi sem stuðlar að faglegum og persónulegum þroska hvers starfsmanns, í samræmi við ný tækifæri og áskoranir í starfi. Samtökin vinna því markvisst að samstarfi við viðurkennd innlend og erlend samtök, menntastofnanir, starfsendurhæfingarmiðstöðvar og einnig systursamtök Farfugla innan Hostelling International.

Sérstaklega skal hlúð að leiðbeinandi endurgjöf til sjálfboðaliða og starfsnema. Leitast skal við að leyfa styrkleikum hvers og eins að njóta sín og finna verkefni við hæfi. Til að tryggja sanngirni og réttlæti fylgja Farfuglar siðareglum og skilyrðum sem sett eru varðandi slík verkefni.

 

Jafnrétti og jafnræði

Jafnréttisstefna Farfugla leggur áherslu á að allir eigi jafna möguleika óháð kynferði, aldri, uppruna, kynhneigð, kynvitund, trúarbrögðum eða annarri menningarlegri stöðu. Starfsfólk skal njóta sömu virðingar og hafa jöfn tækifæri til starfa, launa, umbunar, starfsþjálfunar og aðstöðu. Farfuglar líða hvorki einelti, fordóma né kynbundið eða kynferðislegt áreiti.

Farfuglar leggja sitt af mörkum til að gera starfsfólki kleift að samræma starfskröfur og fjölskylduábyrgð og hvetja starfsfólk til að gæta jafnvægis þar á milli.

 

Heilsuvernd og forvarnir

Farfuglum er umhugað um heilsu starfsfólks síns og því er það liður í mannauðsstefnunni að stuðla að heilsueflingu, m.a. reykleysi. Starfsumhverfið á að fullnægja kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Markmiðið er að skapa slysalausan vinnustað og að starfsfólk ástundi heilbrigt líferni. Í rekstri er gert ráð fyrir að sífellt sé unnið að endurbótum sem stuðla að auknu öryggi starfsfólks, samstarfsaðila og gesta.

 

Mannauðsstefnan er í samræmi við stefnuskjal Farfugla frá því í apríl 2016 sem skilgreinir meginstefnu, hlutverk, framtíðarsýn og gildi samtakanna. Mannauðsstefnan skal kynnt starfsfólki Farfugla og vera aðgengileg á innra neti samtakanna. Í tenglum við mannauðsstefnuna hefur verið unnin aðgerðaáætlun þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgð, framgang og eftirfylgni. Mannauðsstefnan skal endurskoðuð annað hvert ár og tekur endurskoðun meðal annars mið af könnun á árangri áætlunarinnar. Breytingar á henni skulu samþykktar í stjórn Farfugla ses og kynntar starfsfólki.


Samþykkt í stjórn Farfugla ses 20. september 2016.

Sjálfbærnistefna

Farfuglar vilja að gestir sínir eigi jákvæð samskipti við íslenskt samfélag sem koma öllum aðilum til góða og auka gagnkvæman skilning. Við viljum einnig hvetja gesti okkar til að ferðast á sjálfbæran og ábyrgan hátt og í þeim tilgangi bjóðum við upp á fræðslu um sjálfbærni og leiðir til að gestir geti minnkað umhverfissporið sem þeir skilja eftir sig.

 

Sjálfbærni er í okkar huga stanslaus leit að nýjum leiðum til að minnka neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi okkar. Að sama skapi leggjum við áherslu á að virða og efla félagslega og menningarlega hagsmuni og jafnframt að auka efnahagslega velsæld nærsamfélaga Farfuglaheimilanna.

 

 • Öll tæki sem keypt eru skulu valin með tilliti til góðrar endingar ásamt upplýsingum um vatns- og orkunotkun þeirra þar sem það á við.
 • Við lágmörkum óþarfa innkaup og kaup á einnota hlutum. Við kaupum umhverfisvottaðar vörur þegar þess er kostur.
 • Við verndum náttúruna og forðumst notkun eiturefna. Frárennslismál skulu vera í lagi og sorp flokkað eins og hægt er á Farfuglaheimilunum.
 • Við veljum að kaupa íslenskar og/eða lífrænt vottaðar matvörur sem eru framleiddar á sem náttúrulegastan hátt og seldar milliliðalaust þegar þess er kostur. Við hendum ekki mat að óþörfu og komum vörum frá minni matarframleiðendum á framfæri.
 • Við leggjum áherslu á að safna lífrænum úrgangi á öllum Farfuglaheimilum.
 • Við tökum ábyrgð á okkar hlut í loftslagsbreytingum af mannavöldum og tryggjum kolefnisjöfnun á Farfuglaheimilum með því að gefa gestum kost á að leggja fé í sjóð sem rennur til verkefna sem stuðla að minnkun gróðurhúsalofttegunda.
 • Við virðum mannréttindi og styðjum fjölmenningu og erum á sama tíma meðvituð um menningargildi íslensk samfélags.
 • Við eflum efnahagslega velsæld nærsamfélaga Farfuglaheimilanna með því að hvetja gesti okkar til að gista lengur en eina nótt á hverjum stað og með því að bjóða upp á vörur og þjónustu úr heimabyggð.
 • Við veljum samstarfsaðila sem eiga samleið með stefnu Farfugla, gildum og sjálfbærnistöðlum.
 • Við tryggjum starfsfólki sanngjörn laun og góðar vinnuaðstæður.
 • Við leggjum áherslu á að skapa jafnvægi milli þarfa og væntinga gesta okkar, nærsamfélaga Farfuglaheimilanna og umhverfisins.

 

Farfuglar hafa trú á sjálfbærri framtíð fyrir mannkynið. Við sýnum ábyrgð í verki og eflum hlutverk sjálfbærni innan okkar raða með góðum gjörðum og starfsháttum.

 

Sjálfbærnistefnan er í samræmi við stefnuskjal Farfugla frá því í apríl 2016 sem skilgreinir meginstefnu, hlutverk, framtíðarsýn og gildi samtakanna. Sjálfbærnistefnan skal kynnt starfsfólki Farfugla og vera aðgengileg á innra neti samtakanna. Í tenglum við sjálfbærnistefnuna hefur verið unnin aðgerðaáætlun þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgð, framgang og eftirfylgni. Sjálfbærnistefnan skal endurskoðuð annað hvert ár og tekur endurskoðun meðal annars mið af könnun á árangri áætlunarinnar. Breytingar á henni skulu samþykktar í stjórn Farfugla ses og kynntar starfsfólki.

 

Samþykkt í stjórn Farfugla ses 18. apríl 2016


Share |

Farfuglar ses. | Borgartún 6 | 105 Reykjavík | Sími 575 6700 | Fax 553 0535 | info@hostel.is | Copyright ©www.hostel.is - Allur réttur áskilinn.